
Halldór Lárusson, Guðmundur Sveinsson og Eðvarð Ingi Björgvinsson. Ljósmynd: Baldur Kristjánsson
Breytingar í eigendahópi Héðins
Héðinn eignarhaldsfélag ehf. hefur keypt 93 prósent hlut í Héðni hf. Á bakvið kaupin standa Guðmundur Sveinsson, fyrrverandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Héðins til áratuga, sem átti fyrir 24 prósent hlut í Héðni, Halldór Lárusson núverandi stjórnarformaður Héðins, sem hefur setið í stjórn félagsins síðan 1994, og Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í sextán ár.
Seljendur eru RGI ehf. sem er í eigu þriggja lykilstarfsmanna Héðins, og þrír afkomendur annars stofnanda Héðins, Markúsar Ívarssonar.
Eftir kaupin er Héðinn að tveimur þriðju hluta enn í eigu afkomenda Markúsar. Guðmundur er af þriðju kynslóð afkomenda hans og Halldór af fjórðu kynslóð.
Héðinn var stofnaður árið 1922 og hefur alla tíð þjónað íslenskum sjávarútvegi og iðnaði. Höfuðstöðvar Héðins eru í um 8.000 fermetra húsnæði við Gjáhellu í Hafnarfirði og hjá félaginu starfa um 150 manns.
Rekstur félagsins skiptist í þrjú megin tekjusvið. Fyrsta sviðið er skipaþjónusta en Héðinn hefur verið umboðsaðili Kongsberg Maritime og Bergen Diesel í ríflega 70 ár og þjónustar fiskiskip á Íslandi, Grænlandi og á vesturströnd Bandaríkjanna. Annað tekjusvið er fiskimjöl, en félagið hannar og smíðar búnað til framleiðslu fiskimjöls og lýsis, allt frá einstökum hlutum og upp í heilar verksmiðjur.
Héðinn hefur undanfarin ár komið að mikilli endurnýjum á verksmiðjum SVN, Brims, Skinneyjar-Þinganess og Ísfélagsins. Þriðja tekjusviðið er iðnaðarþjónusta, en undir það falla stór verk eins og nýlega lokinni Hverahlíðalögn fyrir ON.
Héðinn hefur nýlega stofnað raftæknideild, og rekur auk þess fjögurra manna nýsköpunardeild en meginverkefni hennar hefur verið þróun á þjónustuhugbúnaði.
Send us a message
Fill out the Form


