Project Description
Mikilvægur hlekkur í þróun og uppbyggingu fiskmjölsverksmiðjanna
Héðinn á ríkan þátt í þróun og uppbyggingu þeirra tíu fiskmjölsverksmiðja sem starfa hér á landi. Að baki býr áratuga farsælt samstarf sem hefur stuðlað að aukinni hagkvæmni, rekstraröryggi, orkusparnaði og verðmætari afurðum.
Sjávarútvegsfyrirtækin hafa í gegnum tíðina falið sérfræðingum Héðins heildarumsjón með nýsmíði, endurbótum og breytingum fiskmjölsverksmiðjanna. Innan Héðins hefur orðið til mikil þekking á ferlinu við framleiðslu á mjöli og lýsi, þekking sem byggist á samvinnu, trausti og gagnkvæmum áhuga á að gera sífellt betur. Þessi þekking var kveikjan að þróun og smíði HPP – Héðinn Protein Plant – sem er nýtt ferli við framleiðslu á lýsi og mjöli jafnt á sjó sem landi.
Héðinn þjónustar þannig tvær framleiðsluaðferðir á þessu sviði, hina hefðbundnu og HPP. Mikil gróska er hjá fiskmjölsframleiðendum um land allt og víða verið að ráðast í stórfellda uppbyggingu og endurbætur. Sem dæmi má nefna að hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað er verið að endurnýja stóran hluta hinnar hefðbundnu fiskmjölsverksmiðju fyrirtækisins og samhliða verið að setja upp nýja HPP verksmiðju.
HPP – Héðinn Protein Plant
Héðinn hóf árið 2010 þróun nýrrar nálgunar við framleiðslu á mjöli og lýsi með áherslu á að minnka orkunotkun og umfang starfseminnar og skila verðmætari afurðum. Afraksturinn er HPP – Héðinn Protein Plant – sem notar 30% minni orku, tekur 30% minna pláss og hefur 30% færri framleiðslueiningar.
Lagt var upp með að geta boðið HPP með mismunandi afkastagetu, sem þó byggir að öllu leyti á sömu grunnhönnun. Ennfremur að HPP gæti jafnt verið starfrækt á sjó og landi. Fyrsta HPP verksmiðjan á sjó var tekin í notkun í Sólbergi ÓF árið 2017.
HPP framleiðsluferillinn byggir á því að vökvinn er ekki pressaður úr hráefninu í forvinnslunni, heldur er stuðst við tveggja þrepa gufuþurrkun með rafmagni. Allt ferlið verður einfaldara, orkuþörf minnkar og búnaðurinn þarf minna pláss. Fyrir vikið hentar HPP til sjós, sem leiðir til 100% fullnýtingar á því hráefni sem fer um borð. Fyrsta fullbúna HPP verksmiðjan gat unnið úr 7 tonnum af hráefni á sólarhing, en sú nýjasta úr 380 tonnum. Stærsta verksmiðjan á sjó til þessa getur afkastað 100 tonnum á sólarhring og er um borð í frystitogaranum North Star sem gerður er út frá Alaska.
HPP verksmiðjan byggir á mikilli sjálfvirkni og fjarvöktun. Að jafnaði þarf mannshöndin aðeins að koma að sekkjun mjöls og lýsis meðan á framleiðslu stendur. HPP er hönnuð til að skila gæðamjöli með lághitaþurrkun og fiskolíu í hæsta gæðaflokki.
Vefsíða HPP: proteinplant.is
Mjöl- og lýsisframleiðendur á Íslandi
- Síldarvinnslan – Neskaupsstað
- Síldarvinnslan – Seyðisfirði
- Loðnuvinnslan – Fáskrúðsfirði
- Brim – Vopnafirði
- Brim – Akranesi
- Ísfélag Vestmannaeyja – Þórshöfn
- Ísfélag Vestmannaeyja – Vestmannaeyjum
- Vinnslustöðin – Vestmannaeyjum
- Skinney Þinganes – Höfn, Hornafirði
TENGILIÐIR
Sendu okkur línu
Fylltu út formið