Athafnasvæði Prima Protein við Egersund á suðvestur-strönd Noregs. Ljósmynd: Prima Protein.

Morgunblaðið fjallar um stærsta verkefni Héðins á þessari öld

Sjávarútvegsfréttahluti Morgunblaðsins, 200 mílur, hefur birt skemmtilega umfjöllun um verksmiðju norska mjöl- og fiskolíuframleiðandands Prima Protein sem var hönnuð af Héðni.

„Verksmiðjan við Egersund er stærsta einstaka verk Héðins frá aldamótum. Þetta var í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem ný fiskimjölsverksmiðja af þessari stærðargráðu var byggð frá grunni en ekki verið að bæta og breyta gömlum verksmiðjum eins og er yfirleitt venjan,“ segir Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins í frétt 200 mílna. Tilefnið var að Prima Protein var tilnefnt í hóp fimm efstu fyrirtækja í vali norsku Samtaka iðnaðarins (Nærings Foreningen) á fyrirtæki ársins þar í landi.

Prima Protein er ungt fyrirtæki. Verksmiðjan var gangsett 2019 en hún var hönnuð og smíðuð frá grunni af Héðni sem fagnaði 100 ára afmæli 2022. Rekstur Prima Protein hefur þótt mikið ævintýri í Noregi en félagið hefur verið rekið með drjúgum hagnaði frá fyrsta degi.
„Það var hugað að allri hráefna- og orkunýtingu þessarar verksmiðju og þrátt fyrir að vera orðin sex ára gömul er sá þáttur með því betra sem finnst í dag. Við settum til dæmis upp tvö þúsund fermetra eimingartæki og þrjá stóra forsjóðara til að endurnýta umfram varmaorku sem myndast í ferlinu. Í raun er þetta ekkert frábrugðið því sem við höfum gert í verksmiðjunum hérna heima síðustu ár enda orkunýting afar mikilvæg í svona rekstri,“ útskýrir Eðvarð og bætir við að Héðinn hafi komið víða við sögu í Egersund.

,,Sumarið 2022 tókum við til dæmis að okkur að fella og flytja mjöltanka í Grønehaugen við Egersund og setja upp við verksmiðju hinum megin við fjörðinn í Ryttervik. Þetta var flókið verkefni. Hver tankur vegur 80 tonn, er 30 metra að hæð og 7,6 metrar að þvermáli. Við fluttum þá á flotpramma milli staða.“

Hér má lesa umfjöllun 200 mílna í heild.

Deildu þessari frétt

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.