Eimarar með 20 km af rörum
Á undanförnum dögum hafa tvö risastór eimingartæki verið sett upp í nýrri verksmiðju sem er að taka á sig mynd hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað. Í eimingartækin voru þrædd rör sem myndu teygja sig um tuttugu kílómetra ef þau væru lögð saman.
Búnaðurinn var hannaður og smíðaður frá grunni hjá Héðni og tók það starfsfólk fyrirtækisins um þrjá mánuði að þræða rörin í tankana og sjóða föst.
Rörin voru soðin beggja vegna á platta og alls voru þetta um og yfir fimm þúsund suður. Fyrst var punktsoðið af starfsmanni en svo tók róbóti við og hringsauð hvert rör fast. Í myndbandinu sem má skoða hér fyrir neðan má sjá þegar einu röri er rennt á sinn stað. Í næsta áfanga verður komið fyrir pressum og sjóðurum.
Nýja verksmiðjan verður með vinnslugetu upp á 2.000 tonn á sólarhring og er gert ráð fyrir að hún verði tilbúin seint á árinu 2023.
Minni verksmiðjan komin í gang
Fyrr í haust lauk uppsetningu hjá Síldarvinnslunni á minni verksmiðju, sem kemur frá HPP Solutions, og er með 380 tonna vinnslugetu á sólarhring. Á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að tilkoma HPP verksmiðjunnar skapi margvíslega möguleika og hægt verði unnt að keyra hana og stóru verksmiðjuna á sitthvoru hráefninu. Að sögn Hafþórs, rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, hafa allar væntingar um afköst og gæði afurða hafi staðist.
HPP framleiðir verksmiðjur sem vinna hágæða prótein og olíur úr hvítfisk, uppsjávarfisk, laxfiskum og skeldýrum. Þær eru smíðaðar í mismunandi stærð eftir því hvort þær eru fyrir skip eða landvinnslu.
Íslensk nýsköpun
HPP próteinverksmiðjan er íslenskt nýsköpunarverkefni HPP sem var í þróun hjá Héðni í um fimmtán ár og sprettur beint upp úr langri reynslu fyrirtækisins í íslenskum sjávarútvegi. Sérstaða HPP próteinverksmiðja felst í því að þær taka um þriðjungi minni pláss en hefðbundnar fiskimjölverksmiðjur, eru með um 30 prósent færri íhlutum og eyða 30 prósent minni orku. Í skipum með HPP verksmiðju um borð fer ekki einn uggi til spillis. Aflinn er nýttur 100 prósent.
HPP verksmiðjurnar eru smíðaðar í mismunandi stærð eftir því hvort þær eru fyrir skip eða landvinnslu. HPP próteinverksmiðjur hafa verið seldar til útgerða og landvinnsla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklands og Noregs. Hér á landi hafa verið seldar fjórar HPP verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í fullkomnasta fiskiskipi Norðurslóða, Ilivileq í eigu Brims.
HPP Solutions varð sjálfstætt dótturfélag Héðins um síðustu áramót en er nú orðið sjálfstætt félag að fullu leyti og eignarhlutir afhentir hluthöfum Héðins.
Sendu okkur línu
Fylltu út formið