100 árum fagnað með útkomu bókar

Í tilefni af aldarafmæli Héðins er komin út bókin Héðinn í 100 ár – Svipmyndir 1922 til 2022, þar sem stiklað er á stóru í máli og myndum úr sögu félagsins á 138 blaðsíðum.

Hér fyrir neðan er formáli bókarinnar, sem Guðmundur S. Sveinsson, framkvæmdastjóri Héðins 1983 til 1992, síðar stjórnarformaður til 2016 og Gunnar Pálsson, þróunarstjóri Héðins, skrifa fyrir hönd afmælisnefndarinnar.

Bók þessi er gefin út af tilefni af 100 ára afmæli Héðins hf, en fyrirtækið var stofnað 1. nóvember árið 1922. Það voru þeir Bjarni Þorsteinsson og Markús Ívarsson, tveir ungir og áhugasamir vélfræðingar, sem keyptu Járnsmiðju Bjarnhéðins Jónssonar, og til heiðurs honum gáfu þeir fyrirtækinu nafnið Héðinn.

Við gerð bókarinnar hefur opnast fyrir okkur hve starfsemin hefur verið fjölbreytt. Fjölmörg stórvirki voru unnin og þáttur Héðins mikill í þjóðlífinu. Einnig laukst upp fyrir okkur að Héðinn hefur ekki síður verið samfélag en fyrirtæki. Þar fór saman innra starf með Starfsmannafélaginu, úrlausn flókinna verkefna og viðamikil og náin samvinna með viðskiptavinum, sumum hverjum í áratugi. Hugmyndaauðgin sem blasir við hvarvetna úr sögunni lifir góðu lífi og á öllum tímum verða til nýjungar og sífelldar framfarir.

Eins og vel kemur fram á þessum síðum samþættist myndlistin við starfsemi Héðins æ ofan í æ. Það er sem ást frumkvöðulsins Markúsar Ívarssonar á list og menningu hafi gróið inn í anda starfseminnar.

Þessi samantekt inniheldur aðeins brot af því efni, ljósmyndum, teikningum og skriflegum heimildum, sem varðveist hafa í hundrað ára sögu Héðins.

Ljósmyndasafn frá upphafi vega til dagsins í dag er vel varðveitt, og skjalasafn einnig. Því ber að þakka ræktarsemi starfsmanna við fyrirtækið bæði fyrr og síðar. Þar kemur við sögu fjöldi fólks sem hefur verið í lykilhlutverki í starfseminni. Og þótt það hafi ekki ratað í þessa bók á það sannarlega sinn sess í viðhaldi og velgengni Héðins.

Þetta er ekki sagnfræðirit, ekki minningabók og ekki ljósmyndabók heldur bók með ljósmyndum og stuttum textum. Hún sýnir svipmyndir frá 100 ára sögu fyrirtækisins og gefur þannig innsýn í starfsemi fyrirtækisins frá ýmsum hliðum. Er nokkurs konar reisubókarbrot Héðins frá fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar til okkar daga sem vill svo til að er öld mestra framfara Íslandssögunnar.

Deildu þessari frétt

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.