T-drill vél sem gatar ryðfrí rör og dregur stúta út úr þeim
Ör vöxtur nýsköpunarfyrirtækisins Vaxa Technologies hefur áhrif víðar. Meðal annars hjá okkur hér hjá Héðni en við höfum fjárfest í sérstakri „borvél“ vegna vinnu við íhluti í vélar sem munu framleiða smáþörunga, smekkfulla af próteinum og næringarefnum í verksmiðju Vaxa í Jarðhitagarði Orku Náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun.
Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins, segir að vélin, sem er svokölluð T-drill vél, sé ánægjuleg viðbót við vélaflóru fyrirtækisins og sé sú eina sinnar tegundar á Íslandi.
„Forsenda kaupanna er fyrst og fremst þetta verkefni fyrir Vaxa Technologies. Umfangið hjá þeim er það mikið að það réttlætti þessa fjárfestingu, en við höfum einnig fundið fyrir áhuga frá matvælaiðnaðinum og öðrum iðnfyrirtækjum almennt hér á landi á græjunni.
Vélin gatar ryðfrí rör og dregur stúta út úr þeim. Með þessu verklagi sparast eitt té-stykki í innkaupum fyrir hvert einasta útdrag og í sumum tilfellum minnkun líka. Vinnan við að stilla upp og sjóða hefðbundið té-stykki og minnkun verður eðlilega engin þar sem engar suður eru lengur til staðar að sjóða. Þar að auki verður innra yfirborð rörsins áfram slétt sem er kostur fyrir matvælaiðnaðinn sérstaklega þar sem líkur á að að óhreinindi safnist við þessi suðusamskeyti hverfa,“ segir Rögnvaldur.
Uppsetningu vélarinnar var að ljúka í húsnæði Héðins við Gjáhellu í Hafnarfirði. Fór hún fram undir stjórn tæknimanns frá finnska framleiðandanum. Hefur hann einnig haft umsjón með þjálfun fjögurra starfsmanna Héðins sem munu stýra nýju vélinni.
Héðinn hefur tekið þátt í hönnun, smíði og uppsetningu vélbúnaðar í verksmiðjum Vaxa Technologies frá upphafi. Vélarnar, sem framleiða smáþörunga, verða staðsettar í 15.000 fermetra húsi við Hellisheiðarvirkjun. Allt sem þarf til fyrir framleiðsluferlið er á svæðinu: endurnýjanleg raforka, kalt og heitt vatn og koltvísýringur.
T-Drill vélin, tækniupplýsingar
- Gatar allt að sex m löng rör.
- Dregur út úr rörum allt að 273 mm að þvermáli
- Stillingaratriði hvar stútar koma og í hvaða gráðum, dregur út allt að 60,3 mm.
Sendu okkur línu
Fylltu út formið