Héðinn hlýtur jafnlaunavottunina
Nýverið hlaut Héðinn jafnlaunavottun frá Jafnréttisstofu. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunastefna Héðins er órjúfanlegur hluti af launastefnu og gildir fyrir alla starfsmenn félagsins.
„Við erum einstaklega ánægð og stolt af því að geta nú skartað jafnlaunavottuninni. Við höfum ætíð haft að leiðarljósi að greiða laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um menntun eða þekkingu, hæfni og ábyrgð. Það er stefna Héðins að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá félaginu. Jafnlaunavottunin er svo sannarlega sönnun þess,“ segir Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins.
Um jafnlaunavottunina
Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Með innleiðingu staðalsins geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Jafnlaunastaðallinn ÍST85:2012 er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og þar með unnt að veita viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.
Sendu okkur línu
Fylltu út formið