Laerlingur numer 1

Lærlingur númer 1 Jafet Hjartarson kom fyrstur til náms hjá Héðinsmönnum árið 1923. Hér er hann, til hægri, að störfum undir glöggu auga meistarans Bjarna Þorsteinssonar, annars stofnanda Héðins. Rennibekkirnir tveir voru fyrst í stað drifnir af olíumótor af „ALFA“-gerð eða þar til rafhreyflar voru settir við þá. Ljósmynd: Höfundur óþekktur/Héðinn

Dótturfélagið Járnsteypan í Reykjavík

Árið 1933 var ákveðið að stofna Stálsmiðjuna, sameignarfélag vélsmiðjanna Héðins og Hamars. Kom Hamar með fyrirtækið Járnsteypuna í púkkið, sem átti eftir að leika stórt hlutverk í starfsemi Héðins en Járnsteypa varð grundvöllur í framleiðslu Héðins um og eftir miðbik síðustu aldar. Allar framleiðsluvörurnar áttu uppruna sinn að meira eða minna leyti í Járnsteypunni.

Margir af helstu máttarstólpum samfélags í byrjun síðustu aldar tóku þátt í félagstofnunum fyrirtækja í járniðnaði á nýrri öld. Þannig má segja að rjóminn af uppvaxandi borgarastétt á Íslandi hafi tekið þátt í að stofna Járnsteypu Reykjavíkur árið 1905. En frumkvæðið áttu þeir bræður, járnsmiðirnir Gísli og Sigurgeir Finnssynir, sem voru báðir hugmyndaríkir brautryðjendur á ýmsum sviðum nýrra atvinnuhátta. Járnsteypan var vendilega undirbúin og í bráðabirgðastjórn félagsins voru þeir Gísli Finnsson, járnsmiður, N.B. Nielsen, verslunarfulltrúi, Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar forsætisráðherra,

Magnús Benjamínsson, úrsmiður og Jón Pálsson, organisti, í varastjórn Jón Brynjólfsson skósmiður og leðursali. Vel gekk að safna hlutafé og bjartsýni ríkti um framhaldið. Á aðalfundinum var Gísli Finnson kjörinn formaður stjórnar en í stjórn með honum þeir Jón Brynjólfsson og Jón Pálsson en N.B. Nielsen til vara. Fyrsti framkvæmdastjóri Járnsteypunnar var Jes Zimsen. Meðal annarra hluthafa má nefna Eldeyjar Hjalta Jónsson og August Flygering kaupmann, – og bankastjóra beggja banka landsins, Tryggva Gunnarsson (Landsbanka) og Sighvat Bjarnason (Íslandsbanka).

Viðburðir í heimspólitíkinni

Fyrsti mótasmiður fyrirtækisins var danskur maður, Knud Jensen, en þá tók við því hlutverki Jónas Jónasson í Hlíðarhúsum og smíðaði öll mót meðan hann lifði, en eftir hans dag, 1915, voru mót smíðuð á ýmsum stöðum, mest af Árna Jónssyni trésmiði Nýlendugötu 21, til ársins 1925. (5)
Sigurgeir Finnsson var verkstjóri fyrstu misserin. En árið 1908 fengu Járnsteypumenn úrvals smið frá Danmörku, Valdimar Poulsen, til að stjórna smiðjunni. Hann ílentist ekki lengi og stofnaði aðra smiðju. Járnsteypa Reykjavíkur hélt þó áfram starfsemi sinni – og 1910 tók Árni Jónsson sem verið hafði nemi á fyrsta starfsári smiðjunnar, við verkstjórninni. En skemmst var að bíða breytinga í kjölfar viðburða í heimspólitíkinni.

Þegar líða tók á fyrri heimstyrjöld jukust rekstrarerfiðleikar Járnsteypunnar með hækkandi verði á kolum sem notuð voru til bræðslu. Um síðir var ákveðið að selja starfsemina.

Í lok fyrri heimsstyrjaldar, 1918, varð Járnsteypa Reykjavíkur hluti af fyrirtækjasamstæðu sem sett var á laggirnar undir nafni vélsmiðjunnar Hamars.
Þeir Markús Ívarsson og Bjarni Þorsteinsson unnu saman hjá Hamri áður en þeir stofnuðu Héðin 1922 og áttu í margvíslegu samstarfi við sinn gamla vinnustað allt frá byrjun, þótt sömuleiðis væri keppt um verkefni. Benedikt Gröndal verkfræðingur varð framkvæmdastjóri Hamars 1932 og þéttust enn frekar böndin milli fyrirtækjanna.

Segja má að starfsemi Járnsteypunnar hafi verið vaxandi á millistríðsárunum, bæði vegna þess að Íslendingar treystu sér til að gera sífellt meira á þessu sviði, auk þess sem litið var á það sem eins konar sjálfstæðismál að sem mest væri gert í landinu. Engu að síður hélt iðngreinin áfram að njóta erlendra starfskrafta og hugmynda. Þannig var til dæmis fenginn danskur mótasmiður til liðs við Járnsteypuna um miðjan þriðja áratuginn, Svendsen að nafni.

Ekki eru allar ferðir til fjár

Ekki eru allar ferðir til fjár Daninn Emil Andersen kom árið 1926 til að kenna starfsmönnum Héðins á fyrstu rafsuðuvél fyrirtækisins. Á myndinni sést flothylki sem hann og fleiri starfsmenn Héðins höfðu nýlokið við að sjóða saman. Hylkið var smíðað fyrir útgerð togarans Gylfa fyrir tilraunaveiðar með flotvörpu. Sú æfing fór því miður út um þúfur og lagðist hylkið saman undan þrýstingi í fyrstu ferð sinni niður í djúpið. Ljósmynd: Höfundur óþekktur/Héðinn

Samstarf Hamars og Héðins

Árið 1933 var ákveðið að stofna Stálsmiðjuna – sameignarfélag Héðins og Hamars. Það rak starfsemi sína í verksmiðjuhúsi við Brunnstíg. – Loks var gerður samningur árið 1940 milli Héðins og Hamars um um sameiginlegan rekstur á járnsteypu og Tómas ­Vigfússon fenginn til að sjá um nýbyggingu fyrir þá starfsemi. Ástæðan var sú eftirspurn eftir járnsteypu hafði stöðugt verið vaxandi og gamla húsnæðið sprengt utan af sér starfsemina.

Sú bygging komst í gagnið árið 1941 er sameignarfélagið Stálsmiðjan lauk við byggingu verksmiðjuhúss undir starfsemi Járnsteypunnar, sem rúmað gæti hvers kyns málmsteypu. Húsið var 12 sinnum 50 metrar að stærð og áætlað að milli 30 og 40 manns gætu verið þar að störfum. Það var reist á gamalli lóð frá Alliance-útgerðinni við Hringbraut, þar sem verið höfðu stakkstæði en áframhald Hringbrautar var fyrirhugað á þessum slóðum í Vesturbænum. Héðinn varð formlega helmingseigandi Járnsteypunnar með þessari nýbyggingu.

Á fyrsta skeiði eftir stríð var ríkjandi verndarstefna gagnvart íslenskum iðnaði, en upp úr 1960 var vaxandi þrýstingur á afnám tolla og innflutningsgjalda á iðnvarningi í aðdraganda aðildar Íslands að EFTA-fríverslunarbandalagi. Íslenskar framleiðsluvörur urðu að láta í minni pokann gagnvart innflutningi og féllu úr framleiðslu, eins og eldavélar og þvottavélar. En í staðinn tók Járnsteypan þátt í þjónustu Héðins við útgerð, fiskvinnslu, virkjanir og stóriðju sem í vaxandi mæli þurftu á vörum og þjónustu að halda.

Járnsteypan lendir Héðinsmegin

Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur segir í söguágripi sínu af Járnsteypunni, að á árabilinu 1962 til 1989 hafi meðalársframleiðsla verið um 153 tonn af járni, 5,2 tonn af kopar og um tonn af áli. Hins vegar hafi mannafli verið breytilegur í tímans rás, um sautján til tuttugu hafi starfað þar um 1970 en einungis sex til átta manns um 1990. (6) Margvíslegar tækninýjungar á þessu tímabili skýrðu fækkun starfsmanna.

Viðfangsefni Járnsteypunnar hafa verið margvísleg, dálítið mismunandi eftir tímabilum. Á fyrsta skeiði voru steyptir gluggarammar og ofnar, en í vaxandi mæli var steypt í þjónustu fyrir útgerðina, stimplar, gálgar, skrúfur og vélarhlutar. Þá voru alls konar rammar meðal sígildra verkefna, til gatnagerðar bekkir („strætóbekkurinn“) og sérmerktir brunnar – og fyrir sveitarfélögin enn fremur alls konar ristar og rammar og vatnslásar.

Íslenskir listamenn hafa átt athvarf og aðstoð vísa hjá málmsteypumeisturum Héðins og Járnsteypunnar. Í rauninni eru engin takmörk fyrir því sem Járnsteypan var fengin til að gera. Með tímanum varð til mjög merkilegt safn móta sem átti tæpast sinn líka í heiminum. Það var því mikið ólán í menningarsögunni, 8. apríl 1993, er eldur kviknaði í Járnsteypunni – og brunnu þá flest mótin, sem höfðu verið í varðveislu allt frá 1906.

Þess var áður getið í þessari frásögn hvernig vélsmiðjan Héðinn og Hamar áttu saman Stálsmiðjuna og áttu þannig eignaraðild að Járnsteypunni 1941, en árið 1985 urðu skipti. Hamar eignaðist Stálsmiðjuna en Héðinn fékk hlut Hamars í Járnsteypunni og hefur reksturinn síðan verið einungis í höndum Héðinsmanna.

Í Garðabæ og Hafnarfirði

Eftir tæplega 100 ára starfsemi í Vesturbæ Reykjavíkur flutti Járnsteypan að Stórási í Garðabæ og var starfrækt þar undir sama þaki og Héðinn næstu árin. Og þegar Héðinn byggði hin nýju húsakynni fyrir starfseminni að Gjáhellu 4 í Hafnarfirði árið 2008 fylgdi meira en aldargömul Járnsteypa með.

Deildu sögunni

Héðinn í 100 ár

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
26/09/2018|
Go to Top