Markús Ívarsson

Málverk eftir Jón Stefánsson, málað 1932.

Markús Ívarsson

Markús Kristinn Ívarsson fæddist 8. september 1884. Hann nam járnsmíði á Eyrarbakka og vélfræði við Stýrimannaskólann í Reykjavík 1912 til 1913. Að loknu prófi stundaði hann vélgæslu á togurum og flutningaskipum til ársins 1920, en hóf þá vélsmíði í landi. Þessi bakgrunnur hefur áreiðanlega skipt miklu við þróun Héðins. Um langt skeið hafði íslenskur sjávarútvegur verið háður erlendum verkstæðum, svo nálega allt þurfti að sækja til erlendra aðila. Fyrir atbeina Markúsar og þeirra Héðinsmanna var ráðin bót á þessu. Fyrirtækið lagði áherslu á þjónustu við sjávarútveginn, bæði við vaxandi tæknistig og vélvæðingu skipaflotans sem og með gerð ýmissa nýrra véla og tækja fyrir fiskiðnaðinn í landinu.

Markús var vel tengdur og vinmargur með eindæmum. Viðgerðir fyrirtækisins og verklagni stjórnandans kom sér líka oft vel og aflaði honum margra vina meðal sjómanna, ekki síst báru vélstjórarnir mikið traust til hans. Oftsinnis, einkum í byrjun vertíða, var unnið á nóttu í járnsmiðjunni til að þjóna skipunum. Nokkrum sinnum hafði Markús forystu um björgun strandaðra skipa og verðmæta úr ströndum, verkefni sem áttu vel við skapgerð hans, stórhug og athafnasemi.

Markús var kvæntur æskuástinni – Kristínu Andrésdóttur (1885–1969) frá Meðalholtum í Gaulverjabæjar­hreppi, sem einnig sat í stjórn Héðins að bónda sínum látnum og tók þátt í menningarstarfsemi eins og Markús. Hann var annálaður listavinur og safnari þannig að margir listamenn nutu góðs af.

Eftir andlát Bjarna Þorsteinssonar stjórnaði Markús Ívarsson fyrirtækinu einn, en 1941 var því breytt í hlutafélag og Sveinn Guðmundsson vélfræðingur, tengdasonur Markúsar, var ráðinn forstjóri.

Markús Ívarsson féll frá 23. ágúst 1943, en þá var fyrirtækið orðið eitt af stærstu og þekktustu iðnfyrirtækjum landsins. Dætur þeirra Kristínar voru: Guðrún Markúsdóttir (1916–1992), Kristín Helga Markúsdóttir (1918–1971) og Sigrún Markúsdóttir Möller (1921–2003).

Skjótráður verkmaður

Margar sögur voru sagðar af hugvitssemi Markúsar Ívarssonar og skjótum viðbrögðum. Einhverju sinni „voru þeir að vinna saman inni í katli í skipi, Markús og Kjartan Jónsson, sem vann samfleytt í Héðni í 54 ár, eða frá árinu 1924.

Þannig háttaði til að Markús þurfti að smyrja upp fyrir sig í göt sem þar voru. Kom þá í Ijós, að þeir félagar höfðu einungis haft meðferðis smurkönnu, sem hægt var að hella úr en ekki sprauta. Var nú úr vöndu að ráða. „Hvernig í helvítinu eigum að fara að við að koma þessu í?“ spurði Markús. „Tja, ég veit ekki,“ sagði Kjartan og var ráðalaus. Án þess að hugsa sig um, greip Markús smurkönnuna, fulla af olíu og saup á. Spýtti hann síðan olíunni upp fyrir sig og í götin í mjórri bunu. Var hann eins og oft áður fljótari að framkvæma en hugsa, en ekki þótti honum þetta neitt tiltökumál og miklum mun fljótlegra en að hlaupa eftir sprautukönnunni upp í smiðju.“

Markús fór flestra ferða sinna á reiðhjóli um Reykjavík. Þess minntust nágrannar hans að hafa séð hann iðulega gangandi með hjólið sitt, reiðandi málverk sem hann lagði á fótstigið, gjarnan spjallandi við kunningja um leið og þeir virtu fyrir sér listaverkið.

Listamaður í járnsmiðsham

Markús Ívarsson var ekki einungis ástríðufullur listaðdáandi heldur og vinur og velgerðarmaður fjölmargra listamanna – og mikilvægur menningarlífinu sem naut smávægilegs stuðnings opinberra aðilja á ævidögum hans. Þeim mun mikilvægari var sá stuðningur sem hann veitti listum og listamönnum.
Mörgum fannst líka sem draumar hans sjálfs hefðu staðið til þess að vera listamaður, þótt vélsmiðjan hefði haft betur. Í minningarljóði Grétars Fells sagði:

Og því mun listamannslundin gljúpa
við leiði þitt i anda krjúpa,
og þakka góðhug, þakka mildi
þess, er málarans drauma skildi.
En sjálfur muntu sjá og finna
nýtt svigrúm listadrauma þinna,
og hrifinn nýja heimsmynd skoða,
hjúpaða sól og morgunroða.

Stórgjöf til Listasafns Íslands

Þegar þegar Listasafn Íslands var opnað almenningi sumarið 1951, gáfu ekkja Markúsar og dætur þeirra þrjár fjölmörg listaverk úr safni Markúsar, eða um sextíu myndir eftir tuttugu málara gerðar á árunum 1915–1943. Meðal þessara listaverka eru mörg af djásnum Listasafnsins sem oft hafa komið til sýninga, og safnið í heild hefur verið sýnt að minnsta kosti tvisvar, 1966 og 1977.

Nokkrir vinir Markúsar ákváðu að heiðra minningu hans með þvi að stofna minningarsjóð. Í fréttatilkynningu sagði meðal annars: „Markús Ívarsson var mikill vinur lista og listamanna. Hann hafði um mörg undanfarin ár keypt mjög mikið af allskonar listaverkum og hafði hann hug á að halda því starfi áfram, ef honum entist aldur. Myndlistasafn hans mun einsdæmi hér á landi, hjálpsemi og góðvild hans gagnvart listamönnum fágæt. Þeim, sem standa að sjóðsstofnun þessari, fannst því ekki hægt að minnast þessa merkilega listavinar betur, en að reyna að halda áfram starfi hans og kaupa listaverk, en tryggja um leið, að verkin geymist á öruggum stað. Úr væntanlegum sjóði verður árlega varið nokkurri upphæð til kaupa á listaverkum. Verk þau, sem þannig eru keypt, verða afhent Málverkasafni ríkisins til fullrar eignar …“

Stofnskrá sjóðsins var afar ströng og krafðist aðkomu ráðuneyta sem breyttu með tíð og tíma um nöfn og hlutverk. Varð framkvæmd upprunalegu hugmyndarinnar því flóknari en til var stofnað. Niðurstaðan varð eftir langa mæðu að forráðamenn Héðins fengu heimild til að ánafna Vélskóla Íslands sjóðnum. Var hann afhentur til tækjakaupa árið 2015.

Sýning til minningar um Markús

Á lýðveldisárinu 1944 var haldin sýning á 156 listaverkum til minningar um Markús sem látist hafði ári fyrr. Myndirnar voru eftir: Ásgrím Jónsson, Ásmund Sveinsson, Barböru Árnason, Brynjólf Þórðarson, Einar Jónsson, Eyjólf J. Eyfells, Finn Jónsson, Gunnlaug Blöndal, Guðmund Thorsteinsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes S. Kjarval, Jón Engilberts, Jón Stefánsson, Snorra Arinbjarnar, Þórarin B. Þorláksson og Þorvald Skúlason en Markús átti líka verk eftir marga fleiri íslenska listamenn.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
29/09/2018|
Go to Top