Helga_Markusdottir-min

Helga Markúsdóttir

Helga Markúsdóttir og Eldsmiðurinn

Merki Héðins sýnir eldsmið með hamarinn á lofti við steðjann. Það kom fyrst fram á prenti árið 1952 samkvæmt rannsóknum sem Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, hefur unnið að.

Höfundur merkisins er Helga Markúsdóttir, dóttir Markúsar Ívarssonar stofnanda vélsmiðjunnar 30 árum fyrr.
Saga Helgu er merkileg. Í rannsóknum Godds, kemur fram að Helga var fyrst Íslendinga, auk Ágústu Pétursdóttir, til læra sérstaklega hagnýta grafíklist sem síðar fékk heitið grafísk hönnun.

Helga (1918–1971) lærði hagnýta grafíklist við Tekniske Skolen (síðar Konstfack) í Stokkhólmi á árunum 1933 til 1936 þegar art-deco stíllinn blómstraði, en merki Héðins er einmitt teiknað í þeim stíl.

Auk merkis Héðins gerði Helga meðal annars merki Kexverksmiðjunnar Fróns, sem enn lifir góðu lífi í upprunalegu útgáfunni.
Þegar Helga var fjórtán ára gömul, árið 1932, fór hún til Svíþjóðar með eldri systur sinni og var eitt ár í hússtjórnarskóla í Vadö áður en hún hóf nám í grafíklistinni. Hér heima hafði hún meðal annars lært teikningu á námskeiðum hjá Soffíu Stefánsdóttur. Myndlist var ávallt stór hluti af umhverfi Helgu á æskuheimilinu þar sem margir af helstu listamenn þjóðarinnar á þriðja áratug síðustu aldar voru heimagangar, enda faðir hennar ástríðufullur listaverkasafnari.

Vel má vera að innblástur Eldsmiðsins komi frá styttu Ásmundar Sveinssonar, Járnsmiðnum, en stíllinn er mjög ólíkur segir Goddur, sem góðfúslega veitti aðgang að efni sínu um Helgu við samantekt þessarar bókar.

Merki Héðins kom fyrst á prenti 1952 en samsett letur með strikum og Eldsmiðnum sést ekki fyrr en eftir 1960.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
21/09/2018|
Go to Top