Héðinn og járnsmiður Ásmundar
Héðinn og hið fræga listaverk Ásmundar Sveinssonar hafa átt samleið frá öndverðu. Listaverkið var táknmynd glæsilegrar iðnsýningar 1952 og Héðinsmenn ásamt vinum höfðu forgöngu um að listaverkið yrði keypt og gefið Iðnskólanum og Reykjavíkurborg.
Frá því segir í áreiðanlegri heimild – tímariti iðnaðarmanna – að á 50 ára afmæli Iðnskólans, haustið 1954, hafi skólanum og bænum [verið] gefin hin mjög umtalaða myndastytta, Járnsmiðurinn, eftir Ásmund Sveinsson, og voru gefendur: Sveinn Guðmundsson í Héðni, Axel Kristjánsson í Rafha, Ragnar í Smára, Skarphéðinn Jóhannsson arkítekt, Tómas Guðmundsson skáld, Jónas Sólmundsson húsgagnasmíðameistari og Kristín Andrésdóttir, ekkja Markúsar Ívarssonar.
![Þungaflutningar](https://hedinn.is/wp-content/uploads/2022/09/THungaflutningar.jpg)
Þungaflutningar Járnsmiðurinn var fluttur úr listaverkagarði Ásmundar Sveinssonar árið 1952 og komið fyrir á lóð Iðnskólans í Reykjavík. Á myndinni sést listamaðurinn ganga úr skugga um að verkið hafi komist óskaddað á áfangstað. Í fréttum á sínum tíma kom fram að verkið vegur þrjú tonn og að Héðinn hafi séð um flutning þess. Ljósmynd: Höfundur óþekktur/Alþýðublaðið
Það er bersýnilegt, eins og sjá má af þessum nöfnum, að margvísleg tengsl eru við Héðin – og það á nú enn frekar við um sjálft listaverkið, því sköpunarsaga þess hefst bókstaflega í Héðni. Ásmundur segir nefnilega frá því í blaðaviðtali þegar hann kom ungur maður til bæjarins:
„… er ég var um tvítugsaldur, lá leið mín til Reykjavíkur og nam ég þar tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni. Og svo fór ég utan – og ég kom heim aftur – kynntist Markúsi heitnum Ívarssyni í Héðni og við urðum ágætir kunningjar. Ég var tíður gestur í Héðni – þar sá ég nýtízku járnsmíði í algleymingi og ég stóð höggdofa frammi fyrir þeim ósýnilegu risaöflum sem ég sá nútímann leysa þar úr læðingi. Járnsmíðin var orðin að trölladómi, vélabáknin verkuðu á mig eins og tröll.
Í þessari hugarreynslu minni, sem varð smám saman að blossandi innri hvöt, urðu til spírurnar að Járnsmiðnum. Ég lifði í huganum ýmist við hamarinn og steðjann heima í sveitasmiðju föður míns eða í tröllaborgum járnsmiðjanna í Reykjavík – hver getur láð mér þó að ég vildi reyna að létta dálítið á ofurhlöðnum huga mínum, gera tilraun til að túlka stærðina gagnvart smæðinni – þessar andstæður, sem brutust um hið innra með mér?
Já, upp úr þessu varð Járnsmiðurinn til – en það varð ekki í neinu snarkasti … Járnsmiðurinn, hann var fullgerður árið 1936“
Listamaðurinn segist hafa verið að reyna að gera „symbol hinnar tröllauknu járnsmíði nútímans, og um leið þá tröllauknu breytingu, sem átt hefur sér stað frá þeim tíma, er ég sem drengur stóð í smiðjunni – og reyndar í öllum iðngreinum – hún er alls staðar, þessi tröllaukna breyting. – Og ég hef vissan átrúnað á risatækni nútímans, ég hefi trú á því að hún leysi fólkið úr þrældómi gamla tímans …“
Þá má og geta þess að vélsmiðjan Héðinn sá um að flytja Járnsmiðinn á sýningarstað Iðnsýningarinnar 1952 og tekið fram að styttan hafi vegið um þrjár smálestir.
Styttan hafði sumsé alveg frá Iðnsýningunni 1952 staðið á hlaði Iðnskólans og spunnust nokkrar deilur um ágæti listaverksins á þessum tíma. „Margir hafa kviðið því, að Járnsmiðurinn kynni að verða fjarlægður af lóð skólans, þar sem hann var eign listamannsins, en engar ráðstafanir gerðar til að kaupa hann.“
Með þessari gjöf tókst Héðinsmönnum og vinum þeirra að ljúka deilum um listaverkið og sýna listamanninum sóma um leið. Það átti svo að koma í hlut Listaverkanefndar Reykjavíkur að velja listaverkinu framtíðarstað á skólalóðinni.
Eitthvað virðist það hafa vafist fyrir nefndinni, en sumarið 1955 voru næstu fréttir af styttunni: „Á fundi bæjarráðs í fyrradag var samþykkt sú tillaga listaverkanefndar Reykjavíkur að listaverkið „Járnsmiðurinn“ eftir Ásmund Sveinsson, sem verið hefur um skeið við Iðnskólann á Skólavörðuholti, verði endanlega staðsett á „bringunni“ milli Snorrabrautar og Þorfinnsgötu.“ (17) Og þar stendur verkið nú, í garðinum fyrir neðan gamla Fæðingarheimilið í Reykjavík.
![Á-nýjum-stað-min](https://hedinn.is/wp-content/uploads/2022/09/A-nyjum-stad-min.jpg)
Á nýjum stað Járnsmiðurinn stendur nú í garðinum milli Snorrabrautar og Þorfinnsgötu, fyrir neðan gamla Fæðingarheimilið í Reykjavík. Ljósmynd: Páll Stefánsson/Héðinn
Gjöfult samstarf við listafólk Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari hefur vakið mikla athygli víða um heim fyrir skúlptúra sína, myndir af mannfólki, sem má meðal annars sjá víða í Reykjavík. „Ég hef gert mikið af stórum útiverkum og þá eru verkin að hluta til unnin í vélsmiðju og þar vinn ég aðallega með karlmönnum. Það samstarf hefur gengið frábærlega en Vélsmiðjan Héðinn hefur verið minn aðalsamstarfsaðili,“ sagði Steinunn í samtali við Morgunblaðið í júní 2013. Á myndinni eru til vinstri Arnar Guðmundsson tæknifræðingur og Magnús Stefánsson hagleikssmiður. Ljósmynd: Ólafur Hauksson/Héðinn
Samvinna Partnership er skúlptúr eftir Pétur Bjarnason og var steyptur í Járnsteypunni, dótturfélagi Héðins. Það stendur við Sæbraut í Reykjavík, skammt frá Höfða. Tilefni verksins var að 50 ár voru liðin frá því Ísland og Bandaríkin tóku upp stjórnmálasamband. Verkið var afhjúpað 1991 í Reykjavík og tvíburaútgáfa þess í Miami á Flórida 1992. Þetta munu vera stærstu höggmyndir sem steyptar hafa verið í brons og fullunnar á Íslandi. Þær sýna nokkurs konar örvarodd sem samsettur er úr tveimur samhverfum hlutum og má lesa úr því tákn fyrir samstarf tveggja aðila um að horfa fram á við. Ljósmynd: Páll Stefánsson/Héðinn
Brenndar á báli Meðal verka sem Magnús fékk liðsinni Héðins og Járnsteypunnar við eru Einhyrningur, Tvíhyrningar sem er staðsett við Vesturbæjarskóla og Byrði sögunnar, sem stendur við Kirkjubæjarskóla við Kirkjubæjarklaustur og sjá má hér til hægri. Verkið var afhjúpað árið 1997 og vegur um tíu tonn. Það sækir innblástur í þjóðsöguna af hrikalegum örlögum tveggja klaustursystra á 14. öld. Báðar voru brenndar á báli fyrir brot á reglum kirkjunnar. Önnur átti að hafa selt sál sína fjandanum og lagst með mörgum karlmönnum. Hin að hafa talað óguðlega um páfann. Ljósmynd: Páll Stefánsson/Héðinn
Nýjasti geirfuglinn Ólöf Nordal myndlistarkona sést hér í smiðju Járnsteypunnar ásamt Sæmundi Sæmundssyni til hægri og Skúla Hreggviðssyni þar sem skúlptúrinn Geirfugl var steyptur úr áli og síðar settur upp á sýningunni Strandlengjan sem Myndhöggvarafélag Reykjavíkur stóð fyrir 1998. Ljósmynd: Guðmundur S. Sveinsson/Héðinn
Héðinn 100 ára
Sendu okkur línu
Fylltu út formið