Sorpeyðingarstöðin---skarni

Fulltrúi gamla tímans Sorpeyðingarstöðin Skarni, sorpeyðingarstöð Reykjavíkur, hóf starfsemi 1959 og tók við öllu sorpi úr borginni. Þar með var merkilegum áfanga náð í heilbrigðis og menningarmálum bæjarins. Vélar stöðvarinnar voru smíðaðar hjá Héðni. Stöðin breytti sorpinu í áburð (skarna), sem var nýttur fyrir ræktun í landi Reykjavíkur. Stöðin þótti svo byltingarkennd nýsköpun að boðað var til blaðamannafundar þegar hún var opnuð og daginn eftir birtist grein á aðalfréttasíðu Morgunblaðsins með fyrirsögninni „Öskuhaugarnir lagðir niður að fullu og öllu“. Ljósmynd: Höfundur óþekktur/Héðinn

Skarni og Kalka

Héðinn tók þátt í að þróa og smíða nýja og nútímalega sorpeyðingarstöð á Suðurnesjum í stað eldri verksmiðju sem hafði verið starfrækt í aldarfjórðung.

Sorpeyðing er eitt stærsta umhverfismál hvers tíma og hefur Héðinn tekið þátt í hönnun og smíði sorpbrennslustöðva á ýmsum tímaskeiðum í sögu sinni.

Brennslustöðin Kalka á Suðurnesjum var gangsett 1. apríl 2004. Hún er gefin upp fyrir að geta brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári og er með mjög fullkominn reykhreinsibúnað til að halda mengun frá stöðinni í algjöru lágmarki. Fyrirtækið hét áður Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. og var stofnað 1. ágúst 1978. Sú brennslustöð var formlega gangsett 31. ágúst 1979.

Sorpbruninn í Kölku fer fram með sveltu lofti (í raun er koksun í gangi) en súrefni er svo dælt í afgasloftið, við það hækkar hitinn á því gríðarlega og brennir öllu því sem þarf að brenna í afgasinu.

Orkan fer í að búa til háþrýsta gufu, sem knýr rafstöð og afgangsorkan er nýtt til að hita upp plönin í kringum stöðina.
Nafnið vísar til vörðu sem nefndist Kalka og skipti löndum meðal sveitarfélaga á Suðurnesjum en er nú horfin undir flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Varðan var hvítkölkuð og var þekkt kennileiti af sjó.

Í Kölku fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögum og fyrirtækjum á starfssvæði stöðvarinnar samkvæmt verðskrá. Þar er einnig rekið gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til eyðingar og endurvinnslu. Brennslustöðin er einnig útbúin til að eyða sóttmenguðum úrgangi sem og ýmsum flokkum spilliefna sem falla til hér á landi.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
22/09/2018|
Go to Top