_III1968

HPP neðan þilja í togaranum Ilivileq

HPP próteinverksmiðjan

Frá upphafi hafa tengsl Héðins og sjávarútvegs verið sterk. Þar á meðal annaðist Héðinn viðgerðir á togurum og fiskiskipum í flota Íslands.

Segja má að í heila öld hafi verið stöðug víxlverkun innan sjávarútvegins milli Héðins og útgerðar og fiskvinnslu og Héðinn verið brautryðjandi í margs konar tæknibyltingum og framförum í atvinnugreininni.

Þannig hefur Héðinn haft hönd í bagga við nútímavæðingu allra hefðbundinna fiskimjölsverksmiðja á Íslandi, þar með talið við rafvæðingu þurrkunar.

Íslenskt verk- og hugvit

Nýjasta framlag Héðins er HPP-próteinverksmiðjan þar sem kemur saman íslenskt verkvit og hugvit í hátæknigeira. Verksmiðjan er afrakstur um það bil fimmtán ára nýsköpunar- og þróunarvinnu hjá Héðni.

Lagt var upp með mikilvægi þess að gera verðmæti úr fisktegundum og þeim hluta fisksins sem ekki þykir boðlegur til manneldis, en fram að HPP-lausninni hafði tilfinnanlega vantað litlar verksmiðjur á markaðinn. Lagt var upp með að hanna verksmiðju sem stæðist allar kröfur um umhverfismál, væri ekki mannfrek og gæti búið til mjöl og olíu úr hráefni sem hægt væri að nota ekki aðeins til fóðurframleiðslu heldur til manneldis ef nokkur kostur var á.

Prótótýpan af HPP-verksmiðjunni var sett í gang 2017 í Sólberg ÓF-1 frá Ramma hf. En þegar þetta er skrifað, í mars 2022, hafa HPP-verksmiðjur verið seldar til útgerða og landvinnsla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklandi og Noregi.

Héðinn Protein Plant

Héðinn Protein Plant Frumhugmyndin að HPP frá 2006. Teikningin er eftir höfundinn að HPP lausninni, Gunnar Pálsson, verkfræðing og þróunarstjóra Héðins um árabil.

Vinnslugeta frá 10 til 400 tonnum á dag

Hér á landi hafa verið seldar þrjár HPP-verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í fullkomnasta fiskiskipi Norðurslóða, Ilivileq í eigu Brims sem einnig er Kongsberg-skip, og í Neskaupstað er að rísa 380 tonna HPP-verksmiðja sem er smíðuð fyrir Síldarvinnsluna, en vinnslugeta verksmiðjanna er frá 10 til 400 tonnum á dag, eftir stærð.

Styrkleikar HPP-próteinverksmiðjunnar liggja í því að hún tekur að minnsta kosti 30 prósent minna pláss, er með 30 prósent færri íhlutum og eyðir 30 prósent minni orku en hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur. HPP-verksmiðjan er sem sagt mun nettari hönnun en helstu keppinautarnir. Í hefðbundinni fiskimjölsverksmiðju er 21 aðalhlutur og orka er sett inn á átta stöðum. Í HPP-verksmiðjunni eru aftur á móti sjö aðalhlutar og orka er sett inn á tveimur stöðum.

100 prósent nýting á afla

Þar sem HPP-verksmiðja er um borð í skipum fer ekki einn uggi af afla í sjóinn. Fiskurinn er nýttur 100 prósent. Því sem áður var hent verður að miklum verðmætum. Þannig er hægt að auka próteinframleiðslu án meiri veiða. Eitt stærsta umhverfismál núlifandi kynslóða er að breyta aðferðum við próteinframleiðslu á þá leið að hún verði sjálfbær. Með því að fullnýta aflann er sýnd virðing fyrir náttúruauðlindinni og umhverfinu.

Reikna má með að afurðir HPP-verksmiðja séu sjö til tíu prósent af því aflaverðmæti sem kemur í land eftir því hvort verksmiðjan sé manneldisvottuð eða ekki. Afurðirnar eru ýmist unnar áfram sem hágæða próteinmjöl í fóður eða manneldislýsi.

Um áramótin 2022 varð til fyrirtækið HPP Solutions, sem nú er orðið sjálfstætt félag.

Fullkomnasta skipið

Fullkomnasta fiskiskip norðurslóða Togarinn Ilivileq er stútfullur af búnaði þar sem Héðinn kemur við sögu. Um borð er HPP-próteinverksmiðja og hönnun skipsins og allur vélbúnaður er frá norska fyrirtækinu Kongsberg, sem Héðinn er umboðsaðili fyrir. Hér sést Ilivileq í Reykjavíkurhöfn en það gert út af dótturfélagi Brims, Arctic PrimeFisheries á Grænlandi. Ljósmynd: Páll Stefánsson/Héðinn

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
17/09/2018|
Go to Top