Á skrifstofu forstjóra

Á skrifstofu forstjóra Sveinn Guðmundsson vélfræðingur og forstjóri Héðins við skrifborð sitt á kontórnum við Seljaveg árið 1945. Borðið er mikil völundarsmíð, gjört af Jónasi Sólmundssyni sem var „hirðsmiður“ Héðins þegar vanda þurfti til verka. Er það enn varðveitt hjá Héðni. Til vinstri á veggnum má sjá glitta í mynd af Akranesverksmiðjunni sem Héðinn byggði. Ljósmynd: Sigurhans Vignir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Sveinn Guðmundsson var forstjóri Héðins í 47 ár. Eiginkona hans var Helga, dóttir Markúsar stofnanda fyrirtækisins og Kristínar Andrésdóttur.

Sveinn Guðmundsson (1912–1988) fæddist á Eyrarbakka, sonur ljósmóðurinnar þar, Snjólaugar Sveinsdóttur, og Guðmundar Guðmundssonar, kennara, bóksala og bókhaldara. Hann hóf unglingur nám í rennismíði hjá Héðni og lauk því námi um tvítugt, 1933.

Með stuðningi frá eigendum Héðins lagði hann stund á framhaldsnám í vélfræði í Svíþjóð, og lauk prófi frá Tækniskólanum í Stokkhólmi árið 1936. Hann sigldi beint frá sænskum til Seyðisfjarðar. Þar hafði hinn nýútskrifaði vélfræðingur umsjón með byggingu nýrrar síldarverksmiðju fyrir Héðin hf. Sveinn þótti valda vel þeim verkefnum sem honum var trúað fyrir og ekki skorti stórhug hjá hinum unga manni. Hann bast stjórnendum fyrirtækisins einnig persónulega böndum, því hann kvæntist á næsta ári Helgu dóttur Markúsar forstjóra og Kristínar Andrésdóttur sem einnig hafði fingurgóma á stjórn fyrirtækisins sem stjórnarmaður um margra ára skeið.

Héðinn 25 ára

Héðinn 25 ára Árið er 1947 og Héðinn fagnar 25 ára afmæli. Forstjórar þáverandi stórvelda íslensks iðnaðar mætast þegar Sigurjón Pétursson á Álafossi, til vinstri, færir kollega sínum Sveini Guðmundssyni í Héðni gjöf í tilefni dagsins. Ljósmynd: Sigurhans Vignir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Annars var það Bjarni sem sá Svein fyrir sér sem forstjóra. Er Héðinn fagnaði 50 ára afmæli sínu 1972, kom fram að Sveinn Guðmundsson forstjóri hafði starfað hjá fyrirtækinu í 43 ár. Þá rifjaði hann upp að Bjarni Þorsteinsson hefði komið einn daginn askvaðandi að honum og sagðist ekki búast við að verða langlífur – og skipaði hann, sem næsta forstjóra Héðins. Bjarni lést árið 1938, en Sveinn tók við forstjórn fyrirtækisins nokkrum misserum síðar.

Sveinn hafði með höndum stjórn margs konar verkefna árin áður en hann var ráðinn forstjóri árið 1941 um leið og hann gerðist hluthafi í félaginu um Héðin. Hann þótti afar djarfur og áræðinn stjórnandi, svo margir supu hveljur í námunda við hann, en nær alltaf reyndust ákvarðanir hans vera fyrirtækinu til góðs.

Sveinn var ekki einungis forstjóri og meðeigandi til æviloka, heldur jafnframt forstjóri Stálsmiðjunnar og Járnsteypunnar frá 1943. Hann sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1965 til 1971, var í bankaráði Iðnaðarbankans 1951 til 1970, Í stjórn Iðnaðarmálastofnunar Íslands 1956 til 1962. Formaður stjórnar Sýningarsamtaka atvinnuveganna frá stofnun 1957 til 1966. Í Rannsóknaráði ríkisins 1965 til 1971 auk fleiri trúnaðarstarfa.

Helga Markúsdóttir naut kynfylgju sinnar frá foreldrahúsum og hafði mikla unun af listsköpun og listaverkum sem heimili þeirra hjóna naut góðs af.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
24/09/2018|
Go to Top