Sætir sigrar

Sætir sigrar Lið Héðins, til hægri, og dönsku skipasmíðastöðvarinnar Burmeister & Wain. Lið Héðins var sterkasta firmalið Íslands á sjötta áratugnum og vann sæta sigra innanlands og utan, meðal annars gegn þessu danska liði, en Héðinsmenn skoruðu þrjú mörk gegn einu marki heimamanna. Úrklippa úr félagsblaði Þróttar sem kom út árið 1999 í tilefni af 50 ára afmæli félagsins.

Lífleg félagsstarfsemi í Héðinsnaustum

Starfsmannafélag Vélsmiðjunnar Héðins var stofnað 11. september 1939 og var því ætlað að halda uppi fræðslustarfsemi, og auka kynni meðal starfsfólksins. Starfsmannafélagið stóð fyrir margvíslegum skemmtunum og félagslífi, það tók þátt í íþróttamótum og starfrækti karlakór iðnaðarmanna sem gerði garðinn frægan.

Árið 1943 afhenti Sveinn forstjóri starfsmannafélagi Héðins glæsileg húsakynni við Seljaveg til afnota fyrir starfsemi sína, sem hlaut nafnið Héðinsnaust. Þannig reið Héðinn á vaðið í að skapa aðstöðu fyrir margháttaða félagsþátttöku starfsmanna sinna.

Um langan aldur voru sérstakar nefndir að störfum um einstaka þætti starfseminnar: fræðslunefnd, málfundanefnd, spilanefnd, skemmtinefnd, ferðanefnd, íþróttanefnd sem stóð fyrir þátttöku á mótum í knattspyrnu og handknattleik og jafnvel utanförum kappliða.

Sérstök danshljómsveit var starfandi innan félagsins og spilaði á skemmtunum þess. Einna frægastur varð karlakór Héðins en söngstjóri var Guðmundur Jóhannsson, einn af verkstjórum fyrirtækisins, en hann fékkst einnig við tónsmíðar í frístundum sínum. Nokkur leiklistarstarfsemi var einnig stunduð, og Jóhannes Steinsson verslunarstjóri Héðins samdi leikritið „Nóttin langa“ sem sýnt var víða um land.

Þá kom félagið sér upp skógræktarreit í Heiðmörk, en einn félaganna hafði farið til Noregs í skiptiferð skógræktarfélaganna árið 1952.

Þróttur til úr Héðni

Fyrsti meistaraflokkur Þróttar kom að stórum hluta úr starfsmannahópnum í Héðni, sem á sjötta áratugnum hafði á að skipa sigursælasta firmaliði landsins. Það fór einnig í keppnisferð til útlanda og vann þá sæta sigra, meðal annars gegn liði dönsku skipasmíðastöðvarinnar Burmeister & Wain, en þann leik unnu Héðinsmenn með þremur mörkum gegn einu marki heimamanna.

Forystumenn Þróttar komu einnig úr röðum Héðinsmanna, formenninir Haraldur Snorrason og Óskar Pétursson.

Dömur nema eldsmíði

Fullt hús Eiginkonur verkstjóra Héðins komu reglulega í kynnisferðir í smiðju og þá lá mikið við að sýnd væru réttu handtökin. Þessi ungi lærlingur stóð sína plikt með sóma. Ljósmynd: Jón Oddsson/Héðinn

Góður starfsandi – mikið félagslíf

„Héðinn hefur oft verið verið í fararbroddi hvað vinnuaðstæður snertir,“ sagði Guðmundur Rósinkarsson, vélvirki og stjórnarmaður í stéttarfélagi járniðnaðarmanna, í viðtali við Þjóðviljann í tilefni af hálfrar aldar afmæli fyrirtækisins. Félagslífið á vinnustaðnum væri mjög lifandi og segja mætti stjórnendum fyrirtækisins það til hróss hve góð aðstaða væri til félagsstarfseminnar.

„Héðinn var eitt fyrsta járnsmíðaverkstæðið sem skapaði aðstöðu fyrir mötuneyti á vinnustaðnum sjálfum. Félagslífið á áreiðanlega sinn þátt í því, hve menn hafa verið stöðugir á vinnustaðnum. Í þessu tilliti get ég ímyndað mér að Héðinn hafi nokkra sérstöðu; hér hafa óneitanlega margir fest rætur“.

Þá kvað Guðmundur góða verkstjóra hafa ráðið miklu um gott andrúmsloft á vinnustaðnum.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
23/09/2018|
Go to Top