Sveinssynir

Sveinssynir Sverrir til vinstri og Guðmundur Sveinn í smiðju Héðins við Gjáhellu. Ljósmynd: Baldur Kristjánsson/Héðinn

Bræður við stjórn

Bræðurnir Sverrir og Guðmundur Sveinn synir Helgu, dóttur Markúsar Ívarssonar stofnanda Héðins og Sveins Guðmundssonar, forstjóra fyrirtækisins í 47 ár, skiptu með sér stjórn Héðins frá 1983 til 2016.

Sverrir Sveinsson

Sverrir Sveinsson vann alla sína starfsævi í Héðni. Í upphafi sá hann um innflutning og samskipti við erlenda birgja, en árið 1977 tók hann að sér að byggja upp starfsemi Garðastáls sem var í eigu Héðins. Þar voru framleiddar þak- og veggklæðningar af ýmsu tagi. Undir handleiðslu Sverris dafnaði Garðastál og umsvifin voru mikil um árabil.

Árið 1983 tók Sverrir við stöðu framkvæmdastjóra Héðins og stóð nokkru síðar fyrir mestu skipulagsbreytingum í sögu fyrirtækisins frá stofnun þegar rekstrar­einingar Héðins, sem voru framleiðsla ­Garða­stáls, verslunarrekstur undir nafni Danfoss og gamla kjarnastarfsemin smiðjureksturinn, voru gerðar að sjálfstæðum hlutafélögum undir nöfnunum Garða­stál, Danfoss og Héðinn Smiðja. Þótti mörgum þetta hið mesta óráð enda á tímum þar sem hagkvæmni stærðarinnar var mjög haldið á lofti. En fljótt kom í ljós að Sverrir hafði rétt fyrir sér og með skýrri framtíðarsýn hafði hann teiknað upp módel sem sannarlega átti eftir að gefa góðan árangur.

Eftir nokkurra ára afar farsælan rekstur undir þessum nýju formerkjum voru Danfoss og Garðastál seld, en smiðjureksturinn undir gamla nafninu Héðinn hélt velli og dafnaði áfram undir öruggri stjórn Sverris.

Árið 1992 hætti Sverrir sem framkvæmdastjóri og tók við stöðu stjórnarformanns Héðins og sinnti því hlutverki allt fram til 2016. Var hann öflugur bakhjarl og leiðtogi stjórnenda. Sverrir var með afbrigðum farsæll í starfi sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður, þekktur fyrir sína góðu yfirsýn og hæfileika til að leiða flókin mál til lykta sem best mátti fara.

Guðmundur Sveinn Sveinsson

Guðmundur Sveinn yngsti bróðir Sverris hóf ungur störf í Héðni og varð yfirmaður smiðjuhlutans snemma á níunda áratugnum. Hann var hægri hönd Sverris í þeirri miklu endurskipulagningu sem reyndist svo happadrjúg fyrir fyrirtækið. Það var því eðlilegt skref þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra Héðins af bróður sínum árið 1992 þegar smiðjurekstur var aftur orðinn kjarnastarfsemi Héðins.

Strax við upphaf ferils síns hjá Héðni um 1980, tók Guðmundur að fá ungt starfsfólk til liðs við fyrirtækið og blanda því saman við þá sterku hugvits- og verkmenningu sem átti djúpar rætur í fyrirtækinu. Þannig uxu nýir millistjórnendur úr grasi innan um þá sem eldri voru án þess að riðla menningunni.

Á fyrstu árum Guðmundar var gantast með að tvær kynslóðir starfsfólks hafi verið í Héðni. Annars vegar starfsmenn milli sextugs og áttræðs, sem flestir báru einhverskonar titla, og hins vegar starfsmenn vart komnir af barnsaldri.

Eiginleikar Guðmundar við að ávinna sér og halda trausti fólks ásamt því að skapa andrúmsloft þar sem hæfileikar þess gátu notið sín í hópnum hafa verið ómetanlegir í því uppbyggingarstarfi sem einkennt hefur rekstur Héðins undanfarna áratugi. Þessir mannkostir hafa ekki síður reynst dýrmætir í oft flóknu samstarfi við viðskiptavini og samstarfsaðila innanlands og utan.

Í takti við þá forsjálni sem ávallt hefur markað stjórnun Héðins hófst árið 2015 undirbúningur að enn einum kynslóðaskiptum í yfirstjórn fyrirtækisins. Árið 2016 steig Guðmundur úr stóli framkvæmdastjóra og tók við stjórnarformennskunni af Sverri. Gegndi hann þeirri stöðu þar til Halldór Lárusson tók við keflinu 2021, en Markús Ívarsson var langafi hans.

Deildu sögunni

Sendu okkur línu

Fylltu út formið

Takk fyrir að hafa samband við Héðinn. Við munum hafa samband fljótlega.
Því miður kom upp villa þegar þú sendir skilaboðin. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.
15/09/2018|
Go to Top